9.6.2009 | 18:24
Ætlar Ómar að spila sig of stóran í þessu máli?
Það er alveg ljóst að meirihlutinn í Kópavogi hefur farið verulega á skjön við siðareglur og jafnvel lög í þessum viðskiptum sínum við dóttur bæjarstjórans. Auðvitað beinast flest spjót að Gunnari Birgissyni bæjarstjóra enda tenging hans við málið mest áberandi. Hinsvegar er það ljóst að Framsóknarflokkurinn getur ekki fríað sig undan ábyrgð í þessu máli, líkt og Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi þeirra ætlar sér að gera.
Í kosningunum 2006 tapaði meirihluti B og D tveimur mönnum, þeir höfðu 8 menn af 11, en Framsóknarflokkurinn tapaði tveimur af sínum þremur mönnum og því hélt meirihlutinn á einum manni, 6 á móti 5, í stað 8 á móti 3. Það var því augljóst að skilaboðin til Framsóknarflokksins þá voru að kjósendur vildu þá úr bæjarstjórn og hefði Ómar Stefánsson átt að stíga út úr samstarfinu þá um leið.
Það gerði hann hins vegar ekki og hann mun súpa seyðið af því núna því Gunnar Birgisson dregur Framsóknarflokkinn með sér niður í skítinn í þessu umdeilda máli. Ómar hefur verið strengjabrúða Gunnars og félaga síðustu árin og sérstaklega eftir að hann varð eini Framsóknarmaðurinn í bæjarstjórn. Þetta vita Sjálfstæðismenn mætavel og það gengu meira að segja sögur um það að í prófkjöri Framsóknarmanna fyrir kosningarnar árið 2006, þá hefðu Sjálfstæðismenn flykkst á kjörstað til að tryggja Ómari efsta sætið og þar með áframhaldandi strengjabrúðuleik þeirra.
Nú spilar Ómar sig hinsvegar voðalega stóran, þykist algjörlega koma af fjöllum hvað þetta mál varðar og hann á örugglega eftir að koma oft og mörgum sinnum fram í fjölmiðlum þar sem hann talar á þessum nótum. Þar með er hann auðvitað að skjóta sig í fótinn og sýna bæjarbúm það að hann er algjörlega úti að aka í málefnum bæjarins og að Gunnar Birgisson ræður ferðinni í einu og öllu. Síðan fær Ómar að vera aðalmaðurinn í einstaka málum og þá er hann sáttur, þá fær hann jú að sjást aðeins í blöðunum.
Líklegast þykir mér að fulltrúaráð Framsóknarflokksins slíti þessu blessaða samstarfi. Þá eru ekki margir möguleikar í stöðunni því Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin starfa varla saman og líklegast að þá verði til meirihluti S, V og B. Ef sá verður veruleikinn er allavega eitt ljóst nú þegar, Ómar verður hafður aftast í rútunni og fær ekki lengi að hreykja sér af því að hafa bjargað Kópavogsbúum frá Gunnari. Það voru nefnilega aðrir sem sáu um það.
Mér er bara brugðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2009 | 04:32
Við hverju bjóst fólk?
Það var vitað mál eftir hrunið í haust að mæta þyrfti auknum skuldum með því að hækka skatta og önnur gjöld. Það eru aðgerðir sem enginn er ánægður með. Hélt fólk virkilega að við kæmumst í gegnum þetta án þess að það kæmi við pyngjuna hjá hinum almenna borgara? Það var því miður aldrei möguleiki.
Að tengja þetta sérstaklega við það að vinstri flokkarnir séu við völd er svo mjög ósanngarnt. Ef nú væri við völd ríkisstjórn B og D, sem blessunarlega er ekki, þá þyrftu þeir að ganga í sömu verk. Að hækka skatta og hækka gjöld, jafnvel þó þeir reyni að ljúga að þjóðinni um að þeir myndu aldrei ganga þannig til verks. Lýðskrum af versta tagi.
Svo kemur auðvitað líka til sársaukamikils niðurskurðar, sársaukameiri en fólk gerir sér grein fyrir - sérstaklega hjá þeim sem lifa ennþá í 2007.
En þetta er sá raunveruleiki sem við búum við, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
Áfengi og eldsneyti hækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.5.2009 | 23:30
Samvinna
Mér sýnist nú á öllu að ef menn eru sæmilega skynsamir þá geti menn náð niðurstöðu hvað þessa ESB-tillögu varðar. Framsóknarflokkurinn var auðvitað ekki lengi að hoppa upp í til Sjálfstæðisflokksins eins og ég var reyndar búinn að tala um fyrir kosningar. Held að þessir flokkar eigi bara hvorn annan skilinn.
Auðvitað þarf að festa niður samningsmarkmið fyrir viðræðurnar um aðild að ESB, enda hefur Samfylkingin aldrei talað fyrir öðru en að fara í þessar viðræður með annað en skotheld samningsmarkmið - þó svo að aðrir flokkar, og þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn, hafi reynt að telja fólki trú um að Samfylking vilji í ESB án skilyrða.
Ég held að það sé best að viðtæk samvinna náist um þetta mál þannig að hægt sé að fara gerð samningsmarkmiða og svo aðildarviðræður af fullum krafti. Auðvitað hlýtur utanríkismálanefnd að vera í lykilhlutverki en ríkisstjórnin hlýtur samt sem áður að ráða ferðinni og skipa viðræðunefnd sem fer með okkar mál - með utanríkismálanefnd í stjórnendahlutverki.
Annars var virkilega gaman að sjá að fyrsta baráttumál formanns Framsóknarflokksins sem þingmaður, var að berjast fyrir herberginu sem flokkurinn hefur haft sem vinnuaðstöðu í fjölda ára. Þeir hreinlega neituðu að fara, þó svo að starfsmenn þingsins hafði sagt að svo ætti að vera, og höfðu erindi sem erfiði þar sem málið var sett í salt. Gott að menn hafa allavega forgangsmálin á hreinu...
Utanríkismálanefnd í lykilhlutverki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2009 | 23:31
Klúður hjá RÚV - glæsilegt hjá Jóhönnu.
RÚV átti frekar neyðarlegt klúður á vefsíðu sinni í kvöld. Þar var birt frétt um að Ísland hefði orðið í 7.sæti í undankeppninni í kvöld af þeim tíu þjóðum sem fóru áfram. Ég var nú svolítið hissa enda þóttist ég vita að úrslit úr undankeppnunum sjálfum væru ekki tilkynnt fyrr en eftir lokakeppnina á laugardaginn, nema auðvitað að því leyti hvaða lönd færu áfram, en ekki í hvaða röð þau voru kosin áfram.
Þegar ég kíkti svo hingað á mbl.is og á vísi.is þá sá ég hvernig var í pottinn búið. Á báðum þessum síðum voru fréttir um að Ísland væri númer sjö í röðinni á svið á laugardaginn. Greinilegt er að fréttaritari Rúv.is hefur misskilið erlendar fréttir svona svakalega, enda er búið að fjarlæga fréttina af vefsíðu RÚV.
Annars var flutningur Jóhönnu Guðrúnar alveg sérstaklega glæsilegur í kvöld og greinilegt að fólkið í salnum kunni sömuleiðis vel að meta söng hennar, enda heyrði maður ánægjuhróp áhorfenda á meðan á laginu stóðu, og svo sömuleiðis var hrópað "Iceland, Iceland" þegar verið var að tilkynna hvaða þjóðir færu áfram.
Spurning hvort þetta sé ár "Jóhönnunar" ? Jóhanna Sig, Jóhanna Guðrún...
Ísland komið áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.5.2009 | 14:29
Hvað vill Svandís gera ?
Ég hef töluverðar mætur á Svandísi Svavarsdóttur og hlynntur því að hlutfall kynja sé sem jafnast í stjórnunarstöðum, eins og til dæmis í ríkisstjórn, án þess þó að þar sé hæfari einstaklingum hafnað bara til að jafna út kynjahlutföllin.
Nú má skipta ríkisstjórninni í þrjá hópa. Ráðherra Samfylkingar, ráðherra VG og svo utanþingsráðherra. Utanþingsráðherrarnir eru tveir, karl og kona. Svo hafa ráðherrar VG og Samfylking 5 ráðherra hvor flokkur og það gefur auga leið að í 5 manna hópi er fleira af öðru kyninu en hinu.
Það gefur því auga leið að nema flokkarnir ætli að fara að vesenast í kynjahlutföllum hins flokksins (að SF krefjist að VG verði með 3 konur, eða þá öfugt) þá er ekki ólíklegt að niðurstaðan verði eins og hún er nú, 7 af öðru kyninu en 5 af hinu.
Hvaða leið vill hin ágæta Svandís Svavarsdóttir fara í þessu máli?
Reyndar hefði ég alveg verið til í að fórna einum karlmanni í ráðherrahópi VG, því það finnst án nokkurs vafa hæfari kvenmaður í þeirra þingmannahópi en sá einstaklingur sem er Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Karl stendur upp fyrir konu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.5.2009 | 12:59
Til skammar
Frammistaða dómarans í gær var ekki upp á marga fiska, það er bara þannig. Hann gaf Eric Abidal fáránlegt rautt spjald og sleppti svo tveimur vítaspyrnum sem Chelsea átti að fá.
Það breytir því þó ekki að hegðun leikmanna Chelsea var gjörsamlega til skammar. Didier Drogba og Michael Ballack fóru þar fremstir í flokki og þeir eiga báðir skilið að fá 4-5 leikja bann að mínu mati. Þar með er ég ekki að draga úr mistökum dómarans, en hegðun þeirra var gjörsamlega óafsakanleg. Það munaði hreinlega litlu að Ballack myndi ganga í skrokk á blessuðum Norðmanninum.
Annars var niðurstaðan sigur fyrir knattspyrnuna og það verður eflaust frábær úrslitaleikur á milli Barcelona og Manchester United. Ég hef þá allavega lið til að halda með fyrst mínir menn eru dottnir út...
Övrebo laumað úr landi í lögreglufylgd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.5.2009 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.4.2009 | 14:44
Autt og autt er ekki það sama
Það er broslegt að fylgjast með tilraunum Sjálfstæðismanna við að telja sínum fyrrum stuðningsmönnum að autt atkvæði sé atkvæði greitt vinstri stjórn, eða þá atkvæði sem jafngildi ógildum seðli. Þeir eru greinilega búnir að átta sig á því að margir Sjálfstæðismennirnir hafa gefist upp á flokknum og ætla sér að skila auðu.
Í síðustu forsetakosningum var ekki sama hljóð í Sjálfstæðismönnum. Þá hvöttu þeir sitt fólk til að skila auðu og þá þýddi það auðvitað að verið var að lýsa frati á þá sem voru í framboði (lesist : lýsa frati á Ólaf Ragnar Grímsson). Nú er það auðvitað ekki þannig.
Skrýtið hvað menn eiga auðvelt með að skipta um skoðun eftir því hvað hentar !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2009 | 12:59
Grein eftir mig sem birtist á Eyjafréttir.is og Eyjar.net
Arfleið Sjálfstæðisflokksins
Undanfarið hef ég látið hræðsluáróðursgreinar Sjálfstæðismanna pirra mig óþarflega mikið. Ástæðan er sú að mér finnst mjög miður þegar menn ákveða að reka kosningabaráttu sína á því að tala niður stefnumál andstæðinganna í stað þess að benda á ágæti sinna stefnumála. Leiða má líkur á því að Sjálfstæðismenn sjái lítið ágæti í sínum stefnumálum og því fari þeir þá leið að hræða kjósendur með fullyrðingum um hvað gerist ef Vinstri stjórn verður við völd eftir kosningar. Fullyrðingum sem eiga ekki við rök að styðjast. Ég settist því niður og skrifaði nokkrar línur og langar að benda sérstaklega á þá arfleið sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig eftir 18 ára stjórnartíð.
Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð
Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn í 18 ár samfellt. Fyrst í 4 ár með Alþýðuflokknum, næst 12 ár með Framsóknarflokknum og því næst í 2 ár með Samfylkingu. Það er því alveg ljóst að höfuðábyrgðina á efnahagshruninu hér á landi ber Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefur farið með stjórnina í fjármálaráðuneytinu allan þennan tíma og hefur skapað það regluverk sem hrundi með bönkunum. Davíð Oddsson fyrrverandi formaður, þessi sem allir klöppuðu fyrir og hlógu að á landsfundinum í síðasta mánuði, á heiðurinn af þeirri einkavinavæðingu sem flokkurinn stóð fyrir og gerði það að verkum að í mörgum fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkisins voru einkavinir eða jafnvel einkasynir teknir framyfir hæfara fólk. Heldur einhver að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið af þessari áráttu sinni? Við þurfum ekki á áframhaldandi siðleysi Sjálfstæðisflokksins að halda.
Þó ég tali um ábyrgð Sjálfstæðisflokksins þá bera auðvitað fleiri ábyrgð á því hvernig fór. Framsóknarflokkurinn tók þátt í einkavæðingu bankanna sem mistókst hrapalega og Samfylkingin var á vaktinni þegar efnahagskerfið hrundi. Þeir flokkar bera því líka ábyrgð, en halda ber til haga að töluvert öðruvísi er að hafa verið í stjórn í 18 ár annars vegar eða í 2 ár hins vegar.
Endurnýjunin og siðferði
Mörgum Sjálfstæðismanninum hefur verið tíðrætt um hina miklu endurnýjun innan flokksins og hafa nefnt Suðurkjördæmi sérstaklega hvað það varðar. Samt sem áður eru tver efstu menn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi núverandi þingmenn og því varla hægt að tala um endurnýjun hvað þau varðar, þó svo að í næstu sætum þar á eftir komi nýtt fólk. Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem er oddviti flokksins, var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde árin 1995-2007 og því deginum ljósara að hún tengist fjármálahruninu nánar en í gegnum þau tvö ár sem hún hefur verið þingmaður. Hinn gamalreyndi Árni Johnsen er svo í 2.sæti listans og því miður reis sól hans hæst í neikvæðum málum tengdum Byko og Þjóðleikhúsinu. Nú þegar krafan um siðferði og heiðarleika er allsráðandi er spurning hvernig fólk við veljum okkur til forystu við stjórn landsins.
Í valdatíð Sjálfstæðisflokksins hefur misskipting peninganna aukist gríðarlega. Þeir ríku hafa orðið ennþá ríkari og þeim hefur fjölgað mikið sem eiga varla í sig og á. Þetta mun ekki breytast nema Sjálfstæðisflokkurinn fái frí, í að minnsta kosti 4 ár. Flokkurinn og fólkið brást og tilraun þeirra til að telja fólkinu í landinu trú um að þeir hafi einir flokka farið í naflaskoðun er ekki trúverðug. Nýi-Sjálfstæðisflokkurinn er ekki til og atkvæði merkt D er um leið yfirlýsing um að við viljum áfram þjóðfélag þar sem sumir fá meira en aðrir, eingöngu með því að sýna rétt flokksskírteini. Þjóðfélag þar sem öllu máli skiptir að vera besti vinur aðal. Það að allir hafi jafna möguleika skiptir máli og því geta stjórnmálaflokkarnir stuðlað að, en svo er það auðvitað undir hverjum og einum komið hvernig þeir vinna úr þessum tækifærum sínum. Atkvæði merkt D er yfirlýsing um að viðkomandi sé sáttur með núverandi ástand.
Flokkarnir og Evrópusambandið
Flestum ætti að vera það ljóst að Samfylkingin vill sækja um aðild að Evrópusambandinu sem fyrst eftir kosningar. Því miður er ekki alveg eins ljóst hvað aðrir flokkar ætla sér því það virðist breytast eftir vindátt. Það er einnig alveg ljóst að Samfylkingin mun ekki hvetja til ESB aðildar nema ákveðin markmið náist, til dæmis hvað varðar yfirráð yfir okkar eigin fiskimiðum og raforku, sem auðvitað eru grundvallaratriði. Náum við þeim markmiðum sem sett eru fram er alveg ljóst að innganga í ESB verður mikið gæfuspor fyrir Íslendinga. Með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru næðist efnahagslegur stöðugleiki sem er grundvallaratriði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Þau mega ekki við áframhaldandi óstöðugleika. En þó að Ísland myndi ganga í Evrópusambandið þá er ekki þar með sagt að öll vandamálin gufi upp við það sama, enda hefur Samfylkingin aldrei haldið slíku fram. Innganga myndi hinsvegar hjálpa landinu gríðarlega við að ná sér upp úr þeim öldudal sem það er komið í. Gjaldeyrismálin skipta okkur gríðarlegu máli og það er ótrúlegt að sumir flokkar ætlist til að fólk kjósi þá án þess að þeir hafi raunhæfa stefnu í gjaldeyrismálunum.
Umræðan um tvöfalda atkvæðagreiðslu, þar sem fyrst myndi þjóðin ganga til atkvæða um hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er eingöngu til þess að villa um fyrir landsmönnum. Það er alveg ljóst að við fáum aldrei á hreint hvað felst í ESB aðild nema við förum í samningaviðræður. Að mínu mati er tvölföld atkvæðagreiðsla því tilgangslaus og mun skynsamlegra að fara í viðræður og leggja svo samningsniðurstöðurnar fyrir þjóðina. Það er jú fólkið í landinu sem mun alltaf eiga síðasta orðið. Þannig virkar lýðræðið.
Kjósum rétt
Um leið og ég þakka þeim sem gáfu sér tíma til að lesa þessar hugleiðingar mínar hvet ég alla til að hugsa sig vel um þegar þeir fá kjörseðilinn í hendur þann 25.apríl. Við höfum valdið og tækifærin. Það er í lagi að breyta til að gefa Sjálfstæðisflokknum frí, jafnvel þó maður sé búinn að gefa þeim atkvæði sitt síðustu 20, 30 eða 40 árin. Kjósum rétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2009 | 23:09
Algjörlega nauðsynlegt
Það er algjörlega nauðsynlegt að þessir einstaklingar sem nafngreindir eru, sérstaklega þau sem eru í framboði núna, geri hreint fyrir sínum dyrum strax á morgun. Sjálfstæðismennirnir tveir (Guðlaugur og Illugi) eru í mestu klemmunni þar sem þeir eru oddvitar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, og ef í ljós kemur að Guðlaugur Þór hafi fengið stóran styrk fyrir sína baráttu þá sé ég ekki aðra leið fyrir hann en að draga sig í hléi. Þau Steinunn Valdís og Helgi Hjörvar verða líka að gjöra svo vel og gera hreint fyrir dyrum sínum. Trúverðugleiki þeirra er að veði í þessu máli.
Að sjálfsögðu eiga svo aðrir að feta sömu leið, burtséð frá því hvort öflugir fréttamenn hafa komið upp um þeirra mál eða ekki. Svo að sjálfsögðu þarf að upplýsa þetta með þá þingmenn og ráðherra sem fengið hafa fyrirgreiðslu varðandi lán frá bönkunum. Ég get hreinlega ekki séð að þeir aðilar starfi áfram sem þingmenn eða ráðherrar, sé þetta rétt sem fréttastofa Stöðvar 2 fullyrðir.
Háir styrkir frá Baugi og FL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2009 | 17:49
Áhugavert
Margt áhugavert sem kemur í ljós þegar niðurstöður þessarar könnunar eru skoðaðar. Sjálfstæðisflokkrinn er stærsti flokkur kjördæmisins sem gæti komið einhverjum á óvart en ekki mér. Ég þykist vita að stór hluti þeirra fylgis komi úr mínum heimabæ, en þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf verið gríðarsterkur. Virðist sem fréttir af spillingu flokksins nái ekki þangað.
Svo er ég líka pínu hissa á að Samfylkingin mælist með heil 27%, hefði allt eins átt von á að flokkurinn fengi minna fylgi því reiðin í garð Björgvins fyrrverandi viðskiptaráðherra er ansi mikil. Ég hefði sjálfur ekki kosið hann til forystu og ef ég kysi í Suðurkjördæmi myndi ég líka strika hann út af mínum lista. En ég vona þó að flokkurinn fái gott brautargengi og 3 menn inn.
Annars langar mig að segja við Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi að með hverju atkvæði sem fellur til þeirra, er verið að tryggja stöðu Árna Johnsen á Alþingi. Er það þingmaður sem við viljum hafa í uppbyggingu landsins, á tímum þar sem krafan um siðferði og heiðarleika er gríðarsterk?
D og S listi stærstir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Smári Jökull Jónsson
Færsluflokkar
Tenglar
Mínar uppáhalds
Þær síður sem ég skoða daglega
- Fótbolti.net
- Mogginn
- Vísir
- Sky Sports Íþróttafréttir erlendis
- Eyjan
- Sky News Erlendu fréttirnar
- Eyjafréttir
- Herðubreið Pólitískur fréttavefur
- Smugan Pólitískur fréttavefur í boði Vinstri-Grænna
- Liverpool
- RÚV
- Eyjar.net
- ÍBV
- AMX Pólitískur fréttavefur í boði Sjálfstæðismanna
- Liverpool á Íslandi
Bloggarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar