24.4.2009 | 12:59
Grein eftir mig sem birtist á Eyjafréttir.is og Eyjar.net
Arfleið Sjálfstæðisflokksins
Undanfarið hef ég látið hræðsluáróðursgreinar Sjálfstæðismanna pirra mig óþarflega mikið. Ástæðan er sú að mér finnst mjög miður þegar menn ákveða að reka kosningabaráttu sína á því að tala niður stefnumál andstæðinganna í stað þess að benda á ágæti sinna stefnumála. Leiða má líkur á því að Sjálfstæðismenn sjái lítið ágæti í sínum stefnumálum og því fari þeir þá leið að hræða kjósendur með fullyrðingum um hvað gerist ef Vinstri stjórn verður við völd eftir kosningar. Fullyrðingum sem eiga ekki við rök að styðjast. Ég settist því niður og skrifaði nokkrar línur og langar að benda sérstaklega á þá arfleið sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig eftir 18 ára stjórnartíð.
Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð
Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn í 18 ár samfellt. Fyrst í 4 ár með Alþýðuflokknum, næst 12 ár með Framsóknarflokknum og því næst í 2 ár með Samfylkingu. Það er því alveg ljóst að höfuðábyrgðina á efnahagshruninu hér á landi ber Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefur farið með stjórnina í fjármálaráðuneytinu allan þennan tíma og hefur skapað það regluverk sem hrundi með bönkunum. Davíð Oddsson fyrrverandi formaður, þessi sem allir klöppuðu fyrir og hlógu að á landsfundinum í síðasta mánuði, á heiðurinn af þeirri einkavinavæðingu sem flokkurinn stóð fyrir og gerði það að verkum að í mörgum fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkisins voru einkavinir eða jafnvel einkasynir teknir framyfir hæfara fólk. Heldur einhver að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið af þessari áráttu sinni? Við þurfum ekki á áframhaldandi siðleysi Sjálfstæðisflokksins að halda.
Þó ég tali um ábyrgð Sjálfstæðisflokksins þá bera auðvitað fleiri ábyrgð á því hvernig fór. Framsóknarflokkurinn tók þátt í einkavæðingu bankanna sem mistókst hrapalega og Samfylkingin var á vaktinni þegar efnahagskerfið hrundi. Þeir flokkar bera því líka ábyrgð, en halda ber til haga að töluvert öðruvísi er að hafa verið í stjórn í 18 ár annars vegar eða í 2 ár hins vegar.
Endurnýjunin og siðferði
Mörgum Sjálfstæðismanninum hefur verið tíðrætt um hina miklu endurnýjun innan flokksins og hafa nefnt Suðurkjördæmi sérstaklega hvað það varðar. Samt sem áður eru tver efstu menn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi núverandi þingmenn og því varla hægt að tala um endurnýjun hvað þau varðar, þó svo að í næstu sætum þar á eftir komi nýtt fólk. Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem er oddviti flokksins, var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde árin 1995-2007 og því deginum ljósara að hún tengist fjármálahruninu nánar en í gegnum þau tvö ár sem hún hefur verið þingmaður. Hinn gamalreyndi Árni Johnsen er svo í 2.sæti listans og því miður reis sól hans hæst í neikvæðum málum tengdum Byko og Þjóðleikhúsinu. Nú þegar krafan um siðferði og heiðarleika er allsráðandi er spurning hvernig fólk við veljum okkur til forystu við stjórn landsins.
Í valdatíð Sjálfstæðisflokksins hefur misskipting peninganna aukist gríðarlega. Þeir ríku hafa orðið ennþá ríkari og þeim hefur fjölgað mikið sem eiga varla í sig og á. Þetta mun ekki breytast nema Sjálfstæðisflokkurinn fái frí, í að minnsta kosti 4 ár. Flokkurinn og fólkið brást og tilraun þeirra til að telja fólkinu í landinu trú um að þeir hafi einir flokka farið í naflaskoðun er ekki trúverðug. Nýi-Sjálfstæðisflokkurinn er ekki til og atkvæði merkt D er um leið yfirlýsing um að við viljum áfram þjóðfélag þar sem sumir fá meira en aðrir, eingöngu með því að sýna rétt flokksskírteini. Þjóðfélag þar sem öllu máli skiptir að vera besti vinur aðal. Það að allir hafi jafna möguleika skiptir máli og því geta stjórnmálaflokkarnir stuðlað að, en svo er það auðvitað undir hverjum og einum komið hvernig þeir vinna úr þessum tækifærum sínum. Atkvæði merkt D er yfirlýsing um að viðkomandi sé sáttur með núverandi ástand.
Flokkarnir og Evrópusambandið
Flestum ætti að vera það ljóst að Samfylkingin vill sækja um aðild að Evrópusambandinu sem fyrst eftir kosningar. Því miður er ekki alveg eins ljóst hvað aðrir flokkar ætla sér því það virðist breytast eftir vindátt. Það er einnig alveg ljóst að Samfylkingin mun ekki hvetja til ESB aðildar nema ákveðin markmið náist, til dæmis hvað varðar yfirráð yfir okkar eigin fiskimiðum og raforku, sem auðvitað eru grundvallaratriði. Náum við þeim markmiðum sem sett eru fram er alveg ljóst að innganga í ESB verður mikið gæfuspor fyrir Íslendinga. Með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru næðist efnahagslegur stöðugleiki sem er grundvallaratriði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Þau mega ekki við áframhaldandi óstöðugleika. En þó að Ísland myndi ganga í Evrópusambandið þá er ekki þar með sagt að öll vandamálin gufi upp við það sama, enda hefur Samfylkingin aldrei haldið slíku fram. Innganga myndi hinsvegar hjálpa landinu gríðarlega við að ná sér upp úr þeim öldudal sem það er komið í. Gjaldeyrismálin skipta okkur gríðarlegu máli og það er ótrúlegt að sumir flokkar ætlist til að fólk kjósi þá án þess að þeir hafi raunhæfa stefnu í gjaldeyrismálunum.
Umræðan um tvöfalda atkvæðagreiðslu, þar sem fyrst myndi þjóðin ganga til atkvæða um hvort sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er eingöngu til þess að villa um fyrir landsmönnum. Það er alveg ljóst að við fáum aldrei á hreint hvað felst í ESB aðild nema við förum í samningaviðræður. Að mínu mati er tvölföld atkvæðagreiðsla því tilgangslaus og mun skynsamlegra að fara í viðræður og leggja svo samningsniðurstöðurnar fyrir þjóðina. Það er jú fólkið í landinu sem mun alltaf eiga síðasta orðið. Þannig virkar lýðræðið.
Kjósum rétt
Um leið og ég þakka þeim sem gáfu sér tíma til að lesa þessar hugleiðingar mínar hvet ég alla til að hugsa sig vel um þegar þeir fá kjörseðilinn í hendur þann 25.apríl. Við höfum valdið og tækifærin. Það er í lagi að breyta til að gefa Sjálfstæðisflokknum frí, jafnvel þó maður sé búinn að gefa þeim atkvæði sitt síðustu 20, 30 eða 40 árin. Kjósum rétt.
Um bloggið
Smári Jökull Jónsson
Færsluflokkar
Tenglar
Mínar uppáhalds
Þær síður sem ég skoða daglega
- Fótbolti.net
- Mogginn
- Vísir
- Sky Sports Íþróttafréttir erlendis
- Eyjan
- Sky News Erlendu fréttirnar
- Eyjafréttir
- Herðubreið Pólitískur fréttavefur
- Smugan Pólitískur fréttavefur í boði Vinstri-Grænna
- Liverpool
- RÚV
- Eyjar.net
- ÍBV
- AMX Pólitískur fréttavefur í boði Sjálfstæðismanna
- Liverpool á Íslandi
Bloggarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.